Fundur haldinn í hreppsnefnd Skorradalshrepps 9.desember 2009 kl:21.00 að Hvanneyri. Þessir sátu fundinn: Davíð Pétursson, Fjóla Benediktsdóttir Guðrún Guðmundsdóttir, Pétur Davíðsson, K. Huldu Guðmundsdóttur.
Fjóla Benediktsdóttir ritaði fundargerð.
Á fundinn mætti Ólöf Guðný Valdimarsdóttir starfsmaður byggingar- og skipulagssviðs kom á fundinn.
1. Lögð fram 39. fundargerð byggingar- og skipulagsnefndar dagsett 18. nóvember 2009. Samþykkt
2. Lögð fram 40. fundargerð byggingar- og skipulagsnefndar dagsett 7. desember 2009. Fundargerðin samþykkt og hreppsnefnd samþykkir bókun byggingar- og skipulagsnefndar í lið 3 og felur skipulagsfulltrúa að ganga frá málinu.
3. Fitjahlíð 51. Ólöf Guðný fór yfir minnisblað frá embættinu. Oddvita og skipulagsfulltrúa var falið að hefja ferlið sem lagt er til í minnisblaði skipulagsfulltrúa.
4. Lögð fram tillaga byggingar- og skipulagsnefndar um hámarks byggingamagn frístundahúsa. Miklar umræður urðu um tillöguna og er eftirfarandi stefnumörkun samþykkt:
Stefnumörkun um byggingarmagn á frístundahúsalóðum í Skorradal.
Nýtingarhlutfall lóða verði 0,05 með þeim frávikum að:
a) á lóðum allt að 2000 m2 má byggja að hámarki 100 m2 á hverri lóð.
b) á lóðum 6000 fm og stærri má byggja að hámarki 300 m2 á hverri lóð.
Samanlagt byggingarmagn á hverri frístundahúsalóð verði því aldrei meira en 300 fm.
Byggingarmagn er reiknað sem birt flatarmál.
Á hverri lóð má að jafnaði mest byggja 3 hús; frístundahús, gestahús, geymslu og/eða bátaskýli. Samanlagt byggingarmagn þeirra má ekki vera meira en ofangreindar reglur heimila.
Hámarksstærð á bátaskýli, hvort sem það er byggt stakt á frístundahúsalóð eða á sérstökum lóðum fyrir bátaskýli má vera 35 m2.
Hámarksstærð gestahúss og/eða geymslu má vera 35 fm.
Á þeim lóðum þar sem þegar hafa verið byggð aukahús minni en 10 fm er heimilt að byggja gestahús eða geymslu að frádregnum þeim fermetrum.
Þessi stefnumörkun á við um öll frístundahúsasvæði í Skorradal. Nánar er kveðið á um stærðir í deiliskipulagi fyrir hvert frístundahúsasvæði og geta þær verið mismunandi.
Hér er um hámarksviðmiðunarstærðir að ræða. Við deiliskipulagsgerð og endurskoðun eldra deiliskipulags verður litið til þessara viðmiða sem ítrustu marka um byggingarmagn á hverri lóð en heimilt er að deiliskipuleggja minna byggingarmagn á frístundahúsalóðum. Vegna deiliskipulagsbreytinga þar sem stærðarskilmálar eru óljósir skal skipulags- og byggingarnefnd taka mið af nálægri byggð við endanlega ákvörðun um stærðir.
Einnig er samþykkt að þessi stefnumótun gildi hér eftir fyrir væntanleg deiliskipulög vegna frístundabyggðar og einnig sem leiðbeining fyrir eldri deiliskipulög. Einnig samþykkt að vísa samþykktinni til aðalskipulagsnefndar.
5. Ólöf lagði fram minnisblað skipulagsfulltrúa 9.desember 2009. Oddvita og skipulagsfulltrúa er falið að vinna málin áfram samkvæmt minnisblaði.
6. Lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar er varðar Hvamm. Breytingin felur í sér að 15,6 ha svæði breytist í frístundabyggð. Nýjar reglur varðandi stærðarviðmið verði hafðar til hliðsjónar við deiliskipulagsgerð. Skipulagsfulltrúa er falið að vinna málið áfram og lagfæra gögn til samræmis við umræður fundarins og hefja kynningarferil.
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir vék af fundi.
7. Lögð fram endurskoðuð fjárhagsáætlun 2009 til fyrri umræðu. Samþykkt að vísa til seinni umræðu.
8. Útvarsprósenta 2010. Samþykkt að útsvarsprósentan verði sú sama þ.e.a.s. 11,24 %
9. Ósk um umsögn frá Alþingi um fjölda í sveitarstjórnum. Huldu falið að gera uppkast að umsögn í samræmi við umræður á fundinum.
10. Ósk um styrk frá Björgunarsveitinni Ok fyrir útgáfu á annál ársins 2009. Samþykkt að senda ármótakveðju.
11. Skiltamál. Samþykkt að kaupa og 4 skilti sem verða sett við mörk sveitarfélagsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl:01:10