140 – Skipulags- og bygginganefnd

Skorradalshreppur

Skipulags-og bygginganefnd, fundur nr. 140

Dags. 6.7.2020

Skipulags- og byggingarnefnd Skorradalshrepps
140. fundur
6. júlí 2020 kl.13:00, hélt  skipulags- og byggingarnefnd Skorradalshrepps fund á Hvanneyri.  Þessir sátu fundinn: Jón E. Einarsson, Pétur Davíðsson, Sigrún Guttormsdóttir Þormar, Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir og Sæmundur Víglundsson.
Fundargerð ritaði:Sigurbjörg Ósk Áskelsdóttir, skipulagsfulltrúi.

SV var á fundi undir lið 2 og 3 um fjarfundarbúnað.

Þetta gerðist:

Fundargerð

1. Afgreiðslufundir byggingarfulltrúa – 56- Mál nr. 2006004F
1.1 1705002 – Dagverðarnes 51, byggingarmál
1.2 2006011 – Hreppslaug. umsókn um byggingaleyfi og niðurrif húss
1.3 1705003 – Fitjahlíð 29, byggingarmál
1.4 2005004 – Neðri-Hrepppur, niðurrif húsa
1.5 1105007 – Fitjahlíð 107, frístundahús

Skipulagsmál

2. Kæra nr. 118-2019, Fitjahlíð uppskipting lóðar- Mál nr. 1911010
Skipulags- og byggingarfulltrúi áttu fund með lögmanni sveitarfélagsins. Lögmaður hreppsins mætir á fund nefndarinnar.
Lögmaður fór yfir úrskurð ÚUA.
Gestir
Ómar Karl Jóhannesson, Pacta lögmenn –
3. Fitjahlíð 30, Umsókn um að skipta upp í tvær lóðir.- Mál nr. 1806012
Á 139. fundi hreppsnefndar, þann 23.10.2019, tók nefndin þá ákvörðun að umsókn um skiptingu lóðarinnar Fitjahlíð 30 , og sameiningu hvors helmings hennar við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32, skyldi synjað.
Var umsóknin lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.
Umsækjendur sættu sig ekki við niðurstöðu málsins og kærðu afgreiðslu þess til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Með úrskurði sínum dags. 29. maí 2020, mál nr. 118/2019, felldi úrskurðarnefndin úr gildi áðurnefnda ákvörðun hreppsnefndar.
Þar sem fyrri afgreiðsla hreppsnefndar hefur verið felld úr gildi telst áðurnefnd umsókn óafgreidd hjá Skorradalshrepp.
Tekur skipulags- og byggingarnefnd því málið aftur til umfjöllunar og afgreiðslu nú.

Í áðurnefndum úrskurði úrskurðarnefndarinnar, og í úrskurði vegna sama máls nr. 21/2019, kemur fram að efnislega verði að líta svo á að umrædd umsókn feli efnislega í sér beiðni um skiptingu lóða og breytingu á lóðamörkum og benti úrskurðarnefndin í því sambandi á það að ákvarðanir um lóðir og lóðamörk væru teknar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 og að slíkar ákvarðanir gætu annað hvort verið teknar með deiliskipulagsgerð, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, eða með samþykki sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Með vísan til þeirrar heimildar sem 1. mgr. 48. gr. veiti sveitarstjórnum að skipta lóðum og ákveða lóðamörk án deiliskipulagsgerðar hafi hreppsnefnd ekki verið stætt á því að synja umsókninni einvörðungu með vísan til þess að ekki lægi fyrir deiliskipulag umræddra lóða.

Tillaga skipulags- og byggingarnefndar til hreppsnefndar vegna umsóknarinnar er eftirfarandi:
Ljóst er að ekkert deiliskipulag er í gildi á umræddu svæði.
Því er skipulags- og byggingarnefnd skylt að fjalla um umrædda aðgerð, þ.e. uppskiptingu lóðarinnar Fitjahlíðar 30 og sameiningu hvors helmings hennar eftir uppskipting við lóðirnar nr. 28 og 32, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga, sbr. niðurstaða úrskurðarnefndar frá 29. maí 2020.
Skipulags- og byggingarnefnd bendir á að í núgildandi aðalskipulagi hreppsins kemur fram að hreppurinn hefur sett sér markmið þess efnis að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja jörð, þ.e. um hverja jörð sem frístundabyggð stendur á.
Telur nefndin að afgreiðsla umræddrar umsóknar í samræmi við 1. mgr. 48. gr. gangi gegn framangreindu markmiði.
Þá bendir skipulags- og byggingarnefnd jafnframt á að sameiningar lóða utan deiliskipulagðra svæða hafi ekki verið samþykktar hjá sveitarfélaginu um langa hríð og í því felist að hreppurinn hafi myndað sér stefnu þess efnis vegna slíkra mála. Aukinheldur telur nefndin að misræmi á milli raunstærða lóðanna og skráðra stærða þeirra kalli á gerð deiliskipulags. Umsókn er því synjað.
4. Hvammsskógur neðri, Hvammsskógur 43 og Dynhvammur 5, br. dsk- Mál nr. 2004006
Óveruleg breyting deiliskipulags var grenndarkynnt sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2020 m.s.br. þann 11. maí til og með 11. júní 2020. Engin athugsemd barst á grenndarkynningartíma.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við hreppsnefnd að samþykkja óverulega breytingu deiliskipulags sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. og skipulagsfulltrúa falið að senda samþykkta tillögu breytingar deiliskipulags til Skipulagsstofnunar og birta auglýst um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
5. Fitjahlíð, deiliskipulag Kiðhúsbala- Mál nr. 1402009
Haldinn var fundur með landeiganda þann 30.6.2020 er varðar afmörkun frístundalóða í Kiðhúsbala, þ.e. Fitjahlíð 47-62. Fundinn sat landeigandi, skipulagsfulltrúi og formaður skipulags- og byggingarnefndar. Tillaga að lóðaafmörkunum var lögð fram og kynnt á fundinum.
Tillagan lögð fram og kynnt. Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.
6. Dagverðarnes 210, á svæði 4, breyting deiliskipulags- Mál nr. 2006002
Málið var tekið fyrir á 139. fundi skipulags- og byggingarnefndar. Einnig er óskað eftir því að breyta þakformi, þannig að það verði frjálst. Breytingin samræmist Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2020.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við hreppsnefnd að heimila óverulega breytingu deiliskipulags sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hún grenndarkynnt sbr. 44. gr. sömu laga fyrir lóðarhöfum Dagverðarness 131, 138, 208, 212 og landeiganda.
7. Móar, breyting aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar- Mál nr. 2006004
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum þann 12. maí 2020 að auglýsa breytingar á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 í landi Móa samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svæðið er skilgreint sem landbúnaðarland í gildandi aðalskipulagi. Tillaga að aðalskipulagsbreytingu snýr að því að hluti svæðisins verður skilgreindur sem verslunar-og þjónustusvæði.
Heimilað verður bygging á gestahúsum, geymslu, gróðurhúsi, kaldri vélargeymslu, þjónustuhúsi og tjaldsvæði, auk þess að þar megi vera föst búseta. Gisting á svæðinu verður fyrir allt að 50 manns.
Athugasemdum/ábendingum skal skilað til skrifstofu Hvalfjarðarsveitar að Innrimel 3, 301 Akranesi, eða á netfangið skipulag@hvalfjardarsveit.is “ merkt Móar“ fyrir 24. júlí 2020.
Skipulags- og byggingarnefnd hefur engar athugasemdir varðandi breytingu aðalskipulags Hvalfjarðarsveit er varðar Móa. Skipulagsfulltrúa falið að koma því á framfæri við Hvalfjarðarsveit.

Framkvæmdarleyfi

8. Mófellsstaðir, framkvæmdaleyfi efnistöku í Kaldá- Mál nr. 1911001
Málinu var frestað á 131. fundi skipulags- og byggingarnefndar. Fundur var haldinn með fulltrúa landeiganda þann 2. júní 2020. Samkvæmt umsögn Fiskistofu fellst hún á að tekið sé 3500 m3 af möl og umsækjandi lagfæri bakka og árfarveg Kaldár á um 800 m svæði.
Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við hreppsnefnd að skipulagsfulltrúa verði falið að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 á grundvelli umsagnar Fiskistofu og að samþykki allra landeiganda liggi fyrir.
9. Hornsá, umsókn um framkvæmdaleyfi- Mál nr. 2006001
Hreppsnefnd samþykkti að veita framkvæmdaleyfi á 146. fundi sínum en umsókn um framkvæmdaleyfi hefur verið dregin til baka.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið kl. 17:00.